Ótrúlega gott hafra- og kartöflubrauð

Það er sniðugt að nota alls konar afganga í brauð. Þessa uppskrift samdi ég um daginn þegar ekki var sól og blíða úti. Hún er góð og holl. Þið megið alveg prófa næst þegar þið eruð í bökunarstuði.

Hafra- og kartöflubrauð

Þetta er sérlega gott brauð sem helst lengi mjúkt og  geymist vel. Gott að baka ef við eigum afgang af kartöflum og það skiptir ekki megin máli hversu mikið af þeim við notum. Í staðin má líka nota soðin hrísgrjón eða bankabygg og afgang af hafragraut en þá þarf ekki að setja hafra líka. Bara um að gera að prófa að nýta afganga í brauðgerðina! Það er nefnilega betra en við höldum. Best er að nota allt lífrænt í brauðið sem við náum í þá verður það bragðbetra en það er líka allt í lagi að nota venjulegar vörur.

Uppskriftin er svona:

1 bolli tröllahafrar lagðir í bleyti í  ca 1 dl volgt vatn (til að fljóti yfir)

3 frekar stórar kaldar kartöflur vel stappaðar

1 kg hveiti

25 gr smjör

½ l mjólk

ca.2 msk hrásykur

1 msk maldon salt (mylja milli fingra)

1 poki þurrger (12 gr) eða 50 gr pressuger. 

Setja hafrana í skál og hella volgu vatni yfir lát bíða á meðan hitt er tekið til.Setja mjólkina og smjörið í skál og hita að ca. 40° Setja allt annað þurrefni og stappaðar kartöflur í skál og blanda vel saman, þá eru hafrar settir útí og hrært. Síðan er smjörið og mjólkin sett útí og hnoðað vel (4 mín í hrærivél). Setja vökva smám saman eftir þörfum. Láta lyfta sér í klukkustund. Skipta deiginu í þrennt og fletja út í  köku (eins og pissu en ekki eins þunnt) vefja upp og setja í form. Látið lyfta sér vel (næstum eins og það sé fullbakað).  Þetta passar í þrjú meðalstór form eða tvö stór.  (Það er ekki nauðsynlegt að setja í form en það er ekki verra).

Bakist við ríflega 200° á blæstri.

Verði ykkur að góðu!

Nægjusemi tjaldsins

Við gætum kannski á þessum síðustu og verstu tímum tekið nægjusemi tjaldsins okkur til fyrirmyndar. Hann gerir sér hreiður í vegakantinum, ef hreiður skyldi kalla. Rótar upp lítilli holu og situr þar glaður og ánægður meðan hann hefur frið. Ef ekki er nægjanlegt skjól færir hann sig um set svona einn meter til að komast í betra skjól. En listfengið er óumdeilanlegt. Hver gæti valið flottri litasamsetningu?

tjaldsegg

tjaldurinn
Já, láttu nú hreiðrið mitt (holuna) vera.

Nú svo eru það blessaðar álftirnar. Mættar eina ferðina enn til að verpa og eiga yndislegt sumar á Íslandi. Engar kröfur gerðar, engar áhyggjur af íslenku krónunni. Eina sem væri kannski hægt að hafa áhyggur af er að byggðin færist of nærri varpstöðvunum. Hvað er líka verið að ryðja þessum bústöðum upp um allar trissur? Það hafa kannski ekki margir pælt í því að það er búið að deiliskipuleggja land fyrir sumarbúsaði hér á landi sem myndi vafalaust nægja fyrir næstu aldir.

álftir
En þessar álftir vour sennilega ekki að huga að hreiðurgerð, bara að leita sér að æti í gogginn.

Íslenskt okur

Oft hefur mér misboðið íslensk okur en sjaldan sem nú. Þannig er að á útmánuðum þurfti fyrirtækið sem ég vinn hjá sem er fræðslustofnun að endurnýja prentara. Ekki er það nú í frásögur færandi, við keyptum okkur Ricco prentara á 57.000 kr. hjá N4. Þar fengum við ágæta þjónustu og svo vitnað sé beint í sölustjóra Ricco:  „Þjónusta er mjög góð hjá okkur svo og aðgengi að rekstrarvörum.“ Innan nokkurra daga birtist prentarinn og líkar okkur vel við gripinn sem er lita-laiser prentari. Brátt leið að því að við þyrftum að kaupa duft. Hringdi ég þá i A4 en starfsmaðurinn sem ég talaði við sagðist ekki eiga duft en gæti pantað það og myndu láta mig vita þegar varan kæmi. Ekki lét fyrirtækið vita en við eftirgrennslan kom í ljós að duftið var komið og fengum við það sent.

Nú nálgast prófin og þá þarf mikið að prenta. Ljós fór að blikka á prentaranum og nú vantaði enn duft. Við snérum okkur að þessu sinni til TRS á Selfossi og báðum þá að útvega okkur prentduft. Kom þá fljótt í ljós að ekki reyndist létt verk að fá duft hjá söluaðilanum, A4 og gátu þeir hvorki svarað því hvort duftið væri til, væri í pöntun eða að það væri nokkur von í að það fengist hjá þeim eða myndi koma til með að fást hjá þeim.  Að endingu tókst að útvega okkur duft hjá öðru fyrirtæki og fengum við 2 pakka af svörtu dufti og einn af hverjum lit alls fimm hylki og hljóðaði reikningurinn uppá 94.594 kr. Duftið var næstum 50% dýrara en prentarinn sjálfur og með honum fylgdi með næstum sami skammtur af dufti. Til fróðleiks fylgir hér tafla yfir verðið sem við þurfum að greiða, uppgefið verð þegar við keyptum prentarann og verða á sömu vöru í USA.

 
Prentari Ricco CL 3500NVerð uppgefið af A4 við kaup á prentara (31.01. 08) Söluverð á Íslandi (25.04.08) Verð á Netinu Superware-house USA (23.04.08)
Liturverð/vsk

Verð með

afslætti

með 10% afslættimiðað við gengi 23. apríl
Black15.90012.72012.4863.688
Magenta17.90014.32023.2157.892
Yellow17.90014.32023.2157.892
Cyan17.90014.32023.2157.892
samt:69.60055.68082.13127.364
     
 Mismunur á uppgefnu verði og raunverði  26.451Mismunur Ísland USA 54.767
 

Eins og sjá má af þessari töflu er mismundur á verði dufthylkjanna hér á landi og í USA nánast það sama og verðið á prentaranum, aðeins munar þar 2.000 kr. Mismunur á verði litahylkjanna er sláandi, hvert hylki er nær 40% dýrara. Ekki hefur gengið fallið svona mikið.

Það er ekki heiðarlegt af fyrirtækinu A4 að lofa vöru á tilteknu verði og svo þegar kaupa á vöruna er hún ekki til. Ricco er virt merki innan geirans og mörg fyrirtæki og fjölmargir skólar sem nota slíka prentara. Ekki trúi ég því að við séum eina fyrirtækið sem lent hefur í slíkum hremmingum og vonandi er að þjónusta A4 lagist. Eða eins og þeir lofa á heimasíðu sinni „A4 skrifstofuvörur leggja metnað sinn í að bjóða viðskiptavinum sínum upp á trausta og góða þjónustu.“

En næst þegar kaupa skal blek er sennilega réttast að fara á Netið. Sjá:

http://www.superwarehouse.com/brand/Ricoh/category/color_laser_printers/model/1481278.html 

Loksins rigning!

Loksins er farið að rigna en í allan dag hefur verið raunveruleg rigning hér á Hvolsvelli. Ekki það að ég sé svo mikið fyrir rigningu, mér líkar mjög vel við sól og gott veður, ég elska sumarið og vil helst vera úti allan sólarhringinn. En nú var virkilega þörf fyrir rigningu. Ég átti í gær leið um Markarfljótsaura þar er skógræktarreitur frá Skógræktarfélagi Rangæinga. Þar var fyrir kannski 10 árum gróðursett birki, elri og greni ásamt lúpínu sem átti að gefa trjánum næringu enda aurarnir ekki beint frjósöm jörð. Þetta hefur gengið vel og trén sum hver að verða ansi státin. En nú hafa orðið nokkur afföll í þurrkunum. Birkið hefur hreinlega skrælnað og elrið er mjög illa farið sennilega af maðki.

 Birki Birkiplöntur Þurrkar 2007

Hér má sjá hvernig birkið hefur farið, það er brúnt alveg uppí topp. Berglind við elriplöntur.

Ég var farin að hafa áhyggjur af plöntunum sem ég gróðursetti í vor og kíkti því í brekkurnar. Þær sem ég sá voru hinar hressustu. Þetta var greni sem hafði verið í frysti í vetur. Þetta er í fyrsta sinn sem við plöntum plöntum úr frysti og það verður spennandi að fylgjast með þeim. Þær taka alla vega vel við sér þrátt fyrir þurrkana undanfarið.


Konur í mínus, karlar í plús, alltaf sama sagan

Fátt virðist geta orðið til þess að fjölga konum í ríkisstjórn. Eins og áður ein kona frá íhaldinu og þrjár frá hinum. Ég verð nú samt að gefa Samfylkingunni plús fyrir að standa með konum og landsbyggðinni. Það má velta fyrir sér hvers vegna íhaldið heldur svo sterkt í þá hefð að láta bara þá sem eru eftir á listum fá ráðherraembætti. Er það til að afsaka það að vera nánast bara með karlráðherra, þeir eru jú eftir á listum allsstaðar hjá þeim. Hvað með hæfni? Kemur hún málinu ekkert við? Mér finnst t.d. skrítið hjá þeim að ganga fram hjá konum eins og Guðfinnu Bjarnadóttur. Á ég að trúa því að hún sætti sig við að hætta í fínu djobbi (á góðum launum) bara til að verða óbreyttur þingmaður? Ætlar Geir ekkert að gera í því að halda í svona flotta kandidata? Hver verður fyrstur til að bjóða Guðfinnu nýja vinnu?  Nei, karlar skulu það vera sama hvað... og íhaldskellurnar sætta sig við það. Eru bara með smá skeifu til að byrja með. Frown

Samfylkingin getur ekki fengið plús frá mér fyrir að standa með sjáfri sér. Hvað með Íraksstríðið? Uhm... átt það ekki að vera fyrsta verk Ingibjargar að taka okkur af lista hinna staðföstu þjóða? Ég hefði gjarnan viljað að hún hefði staðið við það. Mér finnst þau nú líka sætta sig við lítinn hlut í ráðuneytisskiptingunni. En það er nú kannski gott, reynsla þeirra er ekki mikil. Nú svo halda þeir því fram að þetta verði velferðarstjórn. Nú geta öll börn landsins tekið niður tannpínutreflana og glaðst yfir væntanlegum setum í tannlæknastólum um allt land.

Í Blaðinu í dag er því haldið fram að ný viðreisnarstjórn sé að taka við. Er þá Samfylkingin gamli Alþýðuflokkurinn? Ég bara spyr, því ekki var hún stofnuð til að vera hann, eða hvað?


"Ekki hleypa neinum ókunnugum inn..."

Hversu oft hafa foreldrar ekki brýnt fyrir börnum sínum að hleypa ekki neinum ókunnugum inn þegar þau eru ein heima? Það er sennilega aldrei of oft gert og aldrei of varlega farið, þess vegna má ég til með að segja hér litla sögu úr hversdagslífinu, kannski til að minna fyrirtæki á að vanda sig í samskiptum við almenning.

Vinkona mín á litla stúlku sem er stundum ein heima. Þessi vinkona mín hringdi heim einn daginn í vikunni til að minna dóttur sína á að fara í tónlistarskólann. Þá sagði sú litla móður sinni að hún gæti ekki farið strax því það hefði hringt maður og sagt að hann væri að koma og hún mætti alls ekki fara út fyrr en hann væri búinn að koma heim til hennar. Vitanlega brá móðurinni við þetta og spurði hver þetta hefði verið. Litla stúlkan vissi það ekki en sagði að maðurinn hefði verið að tala um einhvern mæli. Móðirin sem komst alls ekki frá bað stúlkuna um að láta manninn hringja í sig um leið og hann kæmi og rifjaði upp um leið hvað hún hefði nú oft verið búin að segja henni að hún mætti ekki hleypa neinum ókunnugm inn þegar hún væri ein heima. Maðurinn hringdi svo í móðurina og sagðist vera að setja nýjan rafmagnsmæli í hús á Hvolsvelli og hann hefði séð að það var einhver heima og hann hefði verið í næsta húsi og endilega viljað klára þetta hús líka. Hann baðst innilega afsökunar á þessu og þótti þetta leitt.

Þessi sami maður kom á mitt heimili fyrir nokkrum dögum ásamt félaga sínum og voru þeir ekkert nema almennilegheitin. Ég er húsráðandi og samþykkti að sjálfsögðu að hann kæmi og skipti um rafmagnsmæli þrátt fyrir að ég hefði ekki haft hugmynd um að þetta var í bígerð. Mér finnst hins vegar að opinber þjónustufyrirtæki eigi að senda bréf til neytenda áður en lagt er upp í heimsókn inná öll heimili, þar sem sagt er frá því sem verið er að gera og hvenær megi eiga von á viðkomandi í heimsókn. Annað er í raun ólíðandi og ég er viss um að fleirum hefur brugðið í brún en vinkonu minni.


Að jafna launamun kynjanna, það er frábært!

Í kvöld birtist sjónvarpsauglýsing frá Samfylkingunni. Þar stærir formaður hennar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sig af því að hafa í borgarstjórnartíð sinni jafnað launamun kynjanna hjá borginni. Hvað á hún við?

Hún er ekki að tala um að hún hafi lagt áherslu á að hækka launin hjá öllum þeim góðu konum sem vinna hjá Reykjavíkurborg eins og t.d. :

  • á dvalarheimilum
  • í grunnskólum
  • í leikskólum
  • við félagsþjónustuna
  • og við fjöldamörg önnur mikilvæg þjónustustörf

Ég hef aldrei orðið vör við að Ingibjörg Sólrún hafi haft sérstakar áhyggjur af því að t.d. hin fjölmenna kvennastétt grunnskólakennara hafi of lág laun. Nei, því miður. Ég hefði svo sannarlega viljað trúa því sem hún segir í þessari auglýsingu. Þetta er ekki satt frekar en auglýsingin um að öll börn á Íslandi séu með tannkýli.

Sennilega er Ingibjörg aðeins að tala um Ráðhús Reykjavíkur. Þar hafa margar konur víst jafn há laun og karlar og  það er frábært! En hvers vegna ekki við hin líka, hvers vegna hefur Ingibjörg Sólrún ekki lagt áherslu á að hefðbundnar kvennastéttir fái réttlát laun? Hún var nú einu sinni Kvennalistakona!


Framsóknarsamban bjargar málunum

Í fréttablaðinu í dag er grein um kosningatónlist. Ísólfur Gylfi er frumkvöðull á þessu sviði, gaf út Framsóknarsömbuna fyrir kosningar árið 1999 og hefur hún lifað góðu lífi allt til þessa dags. Í greininni kemur fram að hún hafi átt þátt í glæstum sigri Framsóknarmanna það árið og nú er að athuga hvort hægt er að endurtaka leikinn. Hefjum hana til vega og virðingar og látum hana blása okkur rétta andann í brjóst. Ísólfur segir sækja hugmyndina að sömbunni til Liverpool, bæði Bítlanna og Liverpúl aðdáenda. Það er ekki frá því að hann hafi líka sótt eitthvað til Suður-Ameríku en þar eru menn nú lífsglaðir eins og höfundur sömbunnar.  Magnús Stefánsson hefur gert kosningalag, ekki veit ég hvor það á eftir að gera viðlíka gagn og Framsóknarsamban en ég bíð spennt eftir að heyra. Samfylkingarmenn hafa líka samið texta við þekkt erlent lag, en það gerir örugglega ekki sama gagn. En endilega hlutið á Framsóknarsömbuna, linkurinn er hér til vinstri. Og þeir sem trúa á að lög, ljóðabækur og uppskriftir geri gagn í kosningabaráttu lengi lifi!


Lókalefni í kosningabaráttu

Það er ýmislegt gott við kosningabaráttu, þá finnur maður á einhvern hátt svo mikið fyrir því að tilheyra ákveðnu svæði og ákveðnu kjördæmi. Hluti af þessu er að fá lókal kosningaefni inn um dyralúguna. Það er einhvern veginn persónulegra heldur en þetta fílteraða auglýsingaefni sem birtist á landsvísu. Samt er það þannig að maður veltir stundum fyrir sér tilgangnum með sumu efni. Eins og ég hef áður getið notar Sjálfstæðisflokkurinn minnið um Mallhvíti og dvergana sjö, án þess þó að segja söguna sjálfa, heldur meira sem myndefni. Framsóknarflokkurinn hefur breytt hinum forna Þjóðólfi í uppskriftabók og Samfylkingin hefur gefið út ljóðabók. Uhm... halda þeir að jólin séu í nánd? Eða er verið að reyna höfða til nýrra kjósenda með því að birta eldgömul ættjarðarljóð og mataruppskriftir? Ég held að þetta hitti ekki í mark. Getur jafnvel skapað þá tilfinningu hjá lesandanum að útgefandinn líti niður á kjósendur og telji að þeir hafi ekki neitt vit á pólitík, þannig að það taki því ekki að ræða hana og útlista á prenti eða að flokkarnir hafi ekki neitt að segja, eins og virðist eiga við um öll hin framboðin, því frá þeim hefur ekki komið neitt lókalefni. Sakna þess... 

En smá tilvitnanir svo hægt sé að leggja mat á boðskapinn.  

Fyrst úr ljóðakveri Samfylkingarinnar: 

Lóan eftir Pál Ólafsson 

,,Lóan er komin að kveða burt snjóinn,

kveða burt leiðindin, það getur hún.

Hún hefur sagt mér að senn komi spóinn,

sólskin í dali og blómstur í tún"

Hvaða lærdóm má draga af þessum boðskap. Eru leiðindin kosningabaráttan? Mér finnst þetta einhvern veginn hljóma þannig, enda allir orðnir hálf leiðir á þessu tuði. 

Og svo er það gamli Þjóðólfur Framsóknar: 

Eplasalat úr Biskupstungunum:

  ,,Græn epli eru skorin í bita og ólífuolíu hellt yfir. Sultuðum engifer bætt út í og Kóríander frá Engi í Biskupstungum einnig. Að lokum eru ristaðar nokkrar furuhnetur og sett saman við. " 

Hvaða gagn höfum við svo af þessu? Jú, eplin eru græn og kryddið úr kjördæminu, þannig að ef við gerum salatið sem væri skynsamlegt ef marka má tilganginn, daginn fyrir kjördag er sjens að það gæti minnt okkur á að kjósa Framsókn.      


Mengandi orðræða

Ég hallast að því að rétt sé að taka mark á eldra fólki. Ég hitti um daginn virðulega eldri konu sem hefur mikinn áhuga fyrir pólitík. Hún sagðist ekki skilja þetta sífellda tal um umhverfisvernd hjá honum Steingrími. Það færi honum ekki vel. Hann væri nefilega þannig að hann hugsaði alls ekki um umhverfisvernd þegar hann opnaði munninn. Þá færi nú oftast fram mengandi orðræða, honum hætti til að tala niður til fólks og kæmi oft fram fullur af hroka í garð andstæðinga sinna.  Honum tækist oft að menga hjörtu fólks með tali sínu og það væri ekki umhverfisvernd því við mennirnir værum nú einu sinni hluti af umhverfinu. Mengun og sóðaskapur í orðræðu væri ekkert betri en hver önnur umhverfismengun. Svo mörg voru þau orð.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband