Færsluflokkur: Dægurmál

Íslenskt okur

Oft hefur mér misboðið íslensk okur en sjaldan sem nú. Þannig er að á útmánuðum þurfti fyrirtækið sem ég vinn hjá sem er fræðslustofnun að endurnýja prentara. Ekki er það nú í frásögur færandi, við keyptum okkur Ricco prentara á 57.000 kr. hjá N4. Þar fengum við ágæta þjónustu og svo vitnað sé beint í sölustjóra Ricco:  „Þjónusta er mjög góð hjá okkur svo og aðgengi að rekstrarvörum.“ Innan nokkurra daga birtist prentarinn og líkar okkur vel við gripinn sem er lita-laiser prentari. Brátt leið að því að við þyrftum að kaupa duft. Hringdi ég þá i A4 en starfsmaðurinn sem ég talaði við sagðist ekki eiga duft en gæti pantað það og myndu láta mig vita þegar varan kæmi. Ekki lét fyrirtækið vita en við eftirgrennslan kom í ljós að duftið var komið og fengum við það sent.

Nú nálgast prófin og þá þarf mikið að prenta. Ljós fór að blikka á prentaranum og nú vantaði enn duft. Við snérum okkur að þessu sinni til TRS á Selfossi og báðum þá að útvega okkur prentduft. Kom þá fljótt í ljós að ekki reyndist létt verk að fá duft hjá söluaðilanum, A4 og gátu þeir hvorki svarað því hvort duftið væri til, væri í pöntun eða að það væri nokkur von í að það fengist hjá þeim eða myndi koma til með að fást hjá þeim.  Að endingu tókst að útvega okkur duft hjá öðru fyrirtæki og fengum við 2 pakka af svörtu dufti og einn af hverjum lit alls fimm hylki og hljóðaði reikningurinn uppá 94.594 kr. Duftið var næstum 50% dýrara en prentarinn sjálfur og með honum fylgdi með næstum sami skammtur af dufti. Til fróðleiks fylgir hér tafla yfir verðið sem við þurfum að greiða, uppgefið verð þegar við keyptum prentarann og verða á sömu vöru í USA.

 
Prentari Ricco CL 3500NVerð uppgefið af A4 við kaup á prentara (31.01. 08) Söluverð á Íslandi (25.04.08) Verð á Netinu Superware-house USA (23.04.08)
Liturverð/vsk

Verð með

afslætti

með 10% afslættimiðað við gengi 23. apríl
Black15.90012.72012.4863.688
Magenta17.90014.32023.2157.892
Yellow17.90014.32023.2157.892
Cyan17.90014.32023.2157.892
samt:69.60055.68082.13127.364
     
 Mismunur á uppgefnu verði og raunverði  26.451Mismunur Ísland USA 54.767
 

Eins og sjá má af þessari töflu er mismundur á verði dufthylkjanna hér á landi og í USA nánast það sama og verðið á prentaranum, aðeins munar þar 2.000 kr. Mismunur á verði litahylkjanna er sláandi, hvert hylki er nær 40% dýrara. Ekki hefur gengið fallið svona mikið.

Það er ekki heiðarlegt af fyrirtækinu A4 að lofa vöru á tilteknu verði og svo þegar kaupa á vöruna er hún ekki til. Ricco er virt merki innan geirans og mörg fyrirtæki og fjölmargir skólar sem nota slíka prentara. Ekki trúi ég því að við séum eina fyrirtækið sem lent hefur í slíkum hremmingum og vonandi er að þjónusta A4 lagist. Eða eins og þeir lofa á heimasíðu sinni „A4 skrifstofuvörur leggja metnað sinn í að bjóða viðskiptavinum sínum upp á trausta og góða þjónustu.“

En næst þegar kaupa skal blek er sennilega réttast að fara á Netið. Sjá:

http://www.superwarehouse.com/brand/Ricoh/category/color_laser_printers/model/1481278.html 

Loksins rigning!

Loksins er farið að rigna en í allan dag hefur verið raunveruleg rigning hér á Hvolsvelli. Ekki það að ég sé svo mikið fyrir rigningu, mér líkar mjög vel við sól og gott veður, ég elska sumarið og vil helst vera úti allan sólarhringinn. En nú var virkilega þörf fyrir rigningu. Ég átti í gær leið um Markarfljótsaura þar er skógræktarreitur frá Skógræktarfélagi Rangæinga. Þar var fyrir kannski 10 árum gróðursett birki, elri og greni ásamt lúpínu sem átti að gefa trjánum næringu enda aurarnir ekki beint frjósöm jörð. Þetta hefur gengið vel og trén sum hver að verða ansi státin. En nú hafa orðið nokkur afföll í þurrkunum. Birkið hefur hreinlega skrælnað og elrið er mjög illa farið sennilega af maðki.

 Birki Birkiplöntur Þurrkar 2007

Hér má sjá hvernig birkið hefur farið, það er brúnt alveg uppí topp. Berglind við elriplöntur.

Ég var farin að hafa áhyggjur af plöntunum sem ég gróðursetti í vor og kíkti því í brekkurnar. Þær sem ég sá voru hinar hressustu. Þetta var greni sem hafði verið í frysti í vetur. Þetta er í fyrsta sinn sem við plöntum plöntum úr frysti og það verður spennandi að fylgjast með þeim. Þær taka alla vega vel við sér þrátt fyrir þurrkana undanfarið.


"Ekki hleypa neinum ókunnugum inn..."

Hversu oft hafa foreldrar ekki brýnt fyrir börnum sínum að hleypa ekki neinum ókunnugum inn þegar þau eru ein heima? Það er sennilega aldrei of oft gert og aldrei of varlega farið, þess vegna má ég til með að segja hér litla sögu úr hversdagslífinu, kannski til að minna fyrirtæki á að vanda sig í samskiptum við almenning.

Vinkona mín á litla stúlku sem er stundum ein heima. Þessi vinkona mín hringdi heim einn daginn í vikunni til að minna dóttur sína á að fara í tónlistarskólann. Þá sagði sú litla móður sinni að hún gæti ekki farið strax því það hefði hringt maður og sagt að hann væri að koma og hún mætti alls ekki fara út fyrr en hann væri búinn að koma heim til hennar. Vitanlega brá móðurinni við þetta og spurði hver þetta hefði verið. Litla stúlkan vissi það ekki en sagði að maðurinn hefði verið að tala um einhvern mæli. Móðirin sem komst alls ekki frá bað stúlkuna um að láta manninn hringja í sig um leið og hann kæmi og rifjaði upp um leið hvað hún hefði nú oft verið búin að segja henni að hún mætti ekki hleypa neinum ókunnugm inn þegar hún væri ein heima. Maðurinn hringdi svo í móðurina og sagðist vera að setja nýjan rafmagnsmæli í hús á Hvolsvelli og hann hefði séð að það var einhver heima og hann hefði verið í næsta húsi og endilega viljað klára þetta hús líka. Hann baðst innilega afsökunar á þessu og þótti þetta leitt.

Þessi sami maður kom á mitt heimili fyrir nokkrum dögum ásamt félaga sínum og voru þeir ekkert nema almennilegheitin. Ég er húsráðandi og samþykkti að sjálfsögðu að hann kæmi og skipti um rafmagnsmæli þrátt fyrir að ég hefði ekki haft hugmynd um að þetta var í bígerð. Mér finnst hins vegar að opinber þjónustufyrirtæki eigi að senda bréf til neytenda áður en lagt er upp í heimsókn inná öll heimili, þar sem sagt er frá því sem verið er að gera og hvenær megi eiga von á viðkomandi í heimsókn. Annað er í raun ólíðandi og ég er viss um að fleirum hefur brugðið í brún en vinkonu minni.


Rís þú unga Íslands merki eða Raise your flag!

Mér fannst skemmtilegt að fara á tónleika Bjarkar í gærkvöldi.  Þetta var svo vorlegt, hún flögraði um sviðið eins og fiðrildi, og kórinn var eins og litríkur blómahagi. Allavega leit þetta svona út í mínum nærsýnu augum úr töluverðri fjarlægð. Björk er alltaf sjálfri sér samkvæm flutti í bland ný og gömul lög. Mér fannst síðasta lagið lang skemmtilegast, þar sem hún kvatti ósjálfstæðar þjóðir til sjálfstæðis. “Don’t let them do that to you. Raise your flag”, og kórinn tók undir “higher, higher”. Ástæðan fyrir því að mér fannst þetta lag svona skemmtilegt er sú að það minnti mig á þá gömlu góðu tíma þegar menn nenntu að berjast. Hipparnir alltaf að rífa kjaft yfir einhverju, muniði. Eða þegar ungmennafélagarnir sigldu með bláhvíta fánann forðum. En mér fannst það líka gott hjá henni að minna á að þjóðirnar eigi að varðveita tungu sína og menningu. Ég held að það sé full ástæða til þess að vera svoldið þjóðernislegur og alls ekki neitt slæmt við það. Í huga mínum þróast heimurinn í framtíðinni eins og leirinn sem ég fékk í bernsku. Fallegir litirninr í byrjun en endaði svo í einni grárri kúlu sem enginn nennti að leika sér að. En svo ég víki mér aftur að tónleikunum, þá var lagið líka svo skemmtilegt af því að það féll í kramið hjá krökkunum, krafturinn og baráttuandinn. Kannski ágætis innlegg í upphaf kosningabaráttunnar. Áfram Björk!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband