Hver er vinur litla mannsins?

Kosningaþáttur Sjónvarpsins var leiðinlegur í kvöld eins og hann er vanur að vera. Sama hallærislega uppstillingin og ekki vel stjórnað, sérstaklega hlutanum um skattamálin. Það sem stendur þó uppúr er Steingrímur og ótrúlega hrokafull og ókurteis framkoma hans. Hann spurði að því hver væri vinur litla mannsins. Það er alveg öruggt að hann er það ekki. Hann gerði mikið úr því að einn fyrirspyrjandi úr sal var merktur framsóknarflokki og reyndi eins og hann gat að gera lítið úr honum og fyrirspurn hans. Skipti það einhverju máli að hann var merktur, voru ekki allir þarna inni frá einhverjum stjórnmálaflokkum? Fá stjórnmálamenn ekki misjafnar spurningar? Er það svona framkoma sem vinir litla mannsins eiga að sýna. Eða verður framkoman bara svona við þá sem eru merktir ákveðnum flokkum? Steingrímur, dramb er falli næst!


Fótósjoppið og kosningabaráttan

Fótósjopp getur verið til margra hluta nytsamlegt og gagnast frambjóðendum í kosningabaráttu sérstaklega vel. Hægt er að laga meðfædda útlitsgalla, yngja fólk upp og fegra á allan hátt. Stundum fer þó notkunin út í öfgar eða hvað?  Skoðum dæmi:

XD - 2007 Mér finnst þessi mynd frá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi alveg sérstaklega skemmtileg og getur þetta jafnvel orðið innlegg í aðra baráttu, þá á ég við jafnréttisbaráttuna. Þarna eru allir jafnir, konur og karlar (sumir reyndar aðeins jafnari en aðrir).  Allir jafn stórir, jafn mjóir og næstum því jafn gamlir. Sem sagt alveg frábært.

Myndin minnir mig á einhvern hátt á Mjallhvíti og dvergana sjö, nema hvað þeir eru átta og myndin tekin eftir að Mjallhvít náði í prinsinn.


Nú er gaman, ég skipti máli, ég er kjósandi! - Um tannheilsu barnanna minna

Ég er mikið að velta því fyrir mér hvað ég ætla að kjósa í alþingiskosningunum. Ég ætla að líta vel og vandlega yfir sviðið og velja besta tilboðið.        Í gær skoðaði ég auglýsingu frá Samfylkingunni þar sem hún bendir mér á hvað  tannheilsu íslenskra barna hefur hrakað í tíð þessarar ríkisstjórnar og segjast þau ætla að bæta úr þessu hið snarasta komist þau til valda.  Uhm... lítur vel út..., (ég meina ekki barnið með tannkýlið og öll hin sem hafa þurft að þjást, heldur tilboðið) þetta er eitthvað sem þarf að laga. Ég er t.d. þannig að ég hef ekkert sérstaklega verið að hugsa vel um tannheilsu barnanna minna. Ég kaupi nammi oftar en vikulega handa þeim, ég meina ef þau grenja mjög hátt í búðinni þá laga ég það með smá nammi. Ég hef aldrei verið sérstaklega dugleg að láta þau tannbursta sig reglulega. Tannþráður þekkist vart á mínu heimili og við erum ekkert sérstaklega að huga að fæðuvalinu, skiptir það einhverju máli fyrir tannheilsuna?        Ég veit að það er dýrt að fara til tannlæknis og að ríkið borgar ekki allt í því sambandi hjá börnunum mínum. Ég veit reyndar ekki hvað ég þarf mikið að borga sjálf því ég hef ekkert verið svo mikið að fara með þau til tannlæknis, ég meina er þetta ekki svo hrikalega dýrt? Borgar þetta sig nokkuð? Auðvitað eru þau með eina og eina skemmda tönn, en þetta eru nú hvort eð er barnatennur, detta þær ekki úr hvort eð er?        Já, mér finnst endilega að ríkisstjórnin eigi að bera fulla ábyrgð í þessu máli. Eruð þið ekki sammála? Ég ætla alla vega að íhuga tilboð Samfylkingarinnar, ég ætla ekki að láta skeytingarleysið bitna á börnunum mínum. Ef Samfylkingin vill bera ábyrgðina á tannheilsu barnanna minna þá getur vel verið að ég kjósi hana, því ekki á ég að bera ábyrgðina sjálf?

Frjálslyndir vita ekki hvað kjördæmið mitt heitir

Frjálslyndi flokkurinn birtir heilsíðuauglýsingu í öllum dagblöðum landsins í dag. Þar spyrja þeir landslýð hvort hann verði gjaldþrota. Ég segi nú bara, ég vona ekki, en hver veit?  Það sem svíður hins vegar í þessari auglýsingu er sú staðreynd að Frjálslyndiflokkurinn virðist ekki vita að kjördæmið mitt heitir Suðurkjördæmi en ekki Suðurlandskjördæmi. Það er bara gamli tíminn strákar, sorry. Þessi vankunnátta þeirra er hins vegar alveg skiljanleg. Frjálslyndir hafa ekki haft nein tengsl við kjördæmið sitt svo kjósendur hafi tekið eftir. Magnús Þór Hafsteinsson var þingmaður okkar á síðasta kjörtímabili. Aldrei sá ég hann á svæðinu eða varð vör við að hann hefði nokkurn áhuga fyrir okkur. Hann býr á Akranesi og bjó þar allt síðasta kjörtímabil að því ég best veit og var meira að segja í framboði til bæjarstjórnar á Akranesi í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Það hlýtur að segja nokkra sögu um áhuga hans fyrir kjördæminu. En svona til upplýsingar fyrir Frjálslynda flokkinn þá vil ég vitna í kosningalögin og þá heita kjördæmin: Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi, Suðurkjördæmi, Suðvesturkjördæmi, Suðvesturkjördæmi, Reykjavíkurkjördæmi suður og Reykjavíkurkjördæmi norður.  (Lög  um kosningar til Alþingis 2000 nr. 24  frá 16. maí 2000)Nú svo langar mig að víkja að slagorði Frjálslynda flokksins „Kjóstu F! Forysta fyrir íslenska þjóð“ það svíður líka.Það á sem sagt ekki að kjósa Frjálslynda fyrir alla sem búa á Íslandi. Samkvæmt skilgreiningu alfræðiorðabókarinnar Wikipediu merkir orðið þjóð eftirfarandi:„Þjóð er hópur fólks með sameiginleg menningarleg einkenni, t.d. sömu sögu eða tungumál og oft á tíðum sameiginlegt ætterni. Þjóð hefur oftast einhverja ljósa eða óljósa þjóðarvitund og einstaklingarnir gera sér almennt grein fyrir að þeir tilheyra ákveðnum hóp og kenna sig jafnan við þjóðina. Þjóðir halda sig oft en ekki alltaf á afmörkuðum landsvæðum og mynda oft ríki með eða án annarra þjóða. Þannig myndast þjóðríki og fjölþjóðaríki. Einnig getur ein og sama þjóðin búið í mörgum ríkjum.Það er alveg augljóst að slagorðið vísar aðeins til okkar sem eigum ættir okkar að rekja til víkinga, höfum búið á Íslandi helst alla ævi og eigum  íslensku að móðurmáli. Hvað ætla þeir að gera fyrir hina?

Bændur bjóði ókeypis aflausn fyrir bíleigendur!

Nú býðst almenningi að kaupa sér aflausn vegna bílanotkunnar sinnar. Með því að borga Kaupþingi ákveðna upphæð sem á síðan að fara til kaupa á skógarplöntum sem framleiða eiga kolefni í stað þess sem við eyðum með bílnum okkar. Þetta er svo sem ágætt, en til er önnur lausn og ódýrari fyrir hina þjáðu íslensku þjóð. Bíleigendur geta haft samband við skógarbændur og boðist til að gróðursetja tiltekinn fjölda af plöntum og fengið þannig aflausn alveg ókeypis og um leið ánægjulega dvöl í íslenskri náttúru og tilvalda hreyfingu holla og góða. Ekki má gleyma því að nú fer hver að verða síðastur að njóta íslenkrar náttúru samkvæmt málflutningi ýmissa stjórnnmálaafla. Ég er viss um að þessi aðferð verður miklu ánægjulegri fyrir bíleigendur, það á nú ekki að vera hægt að kaupa allt, eða hvað?

Stöð tvö stóð sig betur en Sjónvarpið

ÉG horfði aftur á kosningasjónvarp í gærkvöldi eins og sannur Sunnlendingur. Nú var það Stöð tvö sem var með útsendingu líka frá Hótel Selfoss eins og Sjónvarpið kvöldinu áður. Ég verð að segja eins og er að Stöð tvö var miklu betri. Sigmundur Ernir stjórnaði liðinu eins og herforingi og leyfði frambjóðendum ekki að gjamma frammí hver fyrir öðrum þannig að áhorfendur þurftu ekki að kunna varalestur eins og þegar Sjónvarpið var að senda út sinn þátt. Mér finnst að kjósendur eigi heimtingu á að geta með einhverju móti þolað að horfa á framboðsfundi í sjónvarpi og þar var hægt hjá Stöð tvö. Gott hjá þeim.

Glatað sjónvarpsefni

Ég horfði í gærkvöldi eins og sannur Sunnlendingur á útsendingu Sjónvarpsins frá Selfossi á einhvers konar framboðsfundi. Ég skil nú bara ekki svona útsendingu. Vegna þess að þarna var margt mjög hallærislegt, fyrir nú utan það hvað þátturinn var leiðinlegur. Nokkur atriði til umhugsunar:

  1. Uppstilling frambjóðenda, konur komið alls ekki í pilsum í slíka útsendingu.
  2. Uppstilling frambjóðenda, þátttakendur gætið að hvernig þið sitjið.
  3. Uppstilling frambjóðenda, af hverju er meirhlutanum D og B stillt upp á móti hinum? Er Sjónvarpið að gera ráð fyrir því að Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn séu saman í kosningabandalagi á móti hinum, eða hvað?
  4. Þátttakendur. Þeir geta reyndar ekkert gert að því hvernig þeir eru, en ekki eru þeir skemmtilegir.
  5. Þáttastjórnendur. Þeir eru sennilega bara að vinna vinnuna sína, en ekki eru þeir skemmtilegir.
  6. Sjónvarpsefni á besta tíma, úff hvað þetta á eftir að verða þreytandi mánuður framundan, væri ekki ráð að prófa eitthvað nýtt?

Hver er sjoppulegastur?

 Jæja, þá fer kosningabaráttan loks af stað og nú er spennandi að fylgjast með hvernig lúkkið verður á henni. Við fyrstu sýn er þetta einhvern veginn svona:

Samfylkingin er með sinn formann í fararbroddi og rauði liturinn allsráðandi. Búið er að afmá allar hrukkur af formanninum, Ingibjörgu Sólrúnu eina ferðina enn, hlýtur að hafa verið meiri vinna núna en fyrir fjórum árum, það fjölgar jú hrukkunum. Í síðustu kosningabaráttu var talað um að sá væri sjoppulegastur sem augljóslega hefði fengið mestu fótóshop yfirferðina. Þá skaraði Ingibjörg Sólrún fram úr og mér sýnist hún ætli að gera það líka núna.

Framsókn fer fram með græna kallinn, minnir örlítð á yfirreið Jóns Baldvins og var það ekki Svavar sem fór með honum um landið á rauðu ljósi? Ég skildi þá herferð aldrei því í mínum huga þýðir rautt ljós stopp og ég held að þeir hafi ekki heldur komist neitt sérstaklega langt þá. Kannski gengur græna kallinum betur enda hefur hann alltaf táknað að maður hafi leyfi til að halda áfram. Sennilega er verið að biðja um það leyfi, leyfi til að halda áfram.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki látið mikið á sér bera, hér í Suðurkjördæmi var send mynd af fimm efstu frambjóðendum flokksins og voru sumir nánast óþekkjanlegir á þeirri mynd, búnir að láta stílisera sig alveg uppá nýtt.

Frjálslyndir ætla ekki að komast uppúr innflytjendapólitíkinni, gott fyrir þá hvað fáir nýbúar skilja íslensku almennilega, þeir vita þá ekki hver óvinurinn er.

Nú svo er það nýi flokkurinn hans Ómars, Íslandshreyfingin, hann er að baksa við að koma saman listum um allt land og ætlar það að taka tíma sinn. Það er nú  nógu erfitt fyrir flokka sem eiga rætur um allt land að finna heppilega frambjóðendur hvað þá fyrir flokka sem eru stofnaðir svona stuttu fyrir kosningar. En þeir mega eiga það að þeir reyna að höfða til allra í litavali, vantar bara gula litinn. Og Ómar sjálfur orðinn sá stjórnmálamaður sem þjóðin ber hvað mest traust til. Hvað þarf til brunns að bera til að teljast góður stjórnmálamaður? Ég bara spyr.

Að lokum eru það svo Vinstri græn. Þau eru búin að henda græna litnum og orðin alveg rauð, í auglýsingu í Mogganum í dag er Ögmundur mættur undir slagorðunum “Bætum kjörin, burt með fátækt” það er gott hjá honum þar sem hann er formaður BSRB og ríkið hefur nú ekki verið þekkt fyrir að borga of há laun í gegnum tíðina. En ég verð að segja eins og er að þeir hefu nú átt að stílisera Ögmund aðeins betur á þessari mynd, ég verð að snúa mér aftur að upphaflegu merkingu orðsins sjoppulegur og þá hlýtur Ögmundur titilinn að þessu sinni.


Rís þú unga Íslands merki eða Raise your flag!

Mér fannst skemmtilegt að fara á tónleika Bjarkar í gærkvöldi.  Þetta var svo vorlegt, hún flögraði um sviðið eins og fiðrildi, og kórinn var eins og litríkur blómahagi. Allavega leit þetta svona út í mínum nærsýnu augum úr töluverðri fjarlægð. Björk er alltaf sjálfri sér samkvæm flutti í bland ný og gömul lög. Mér fannst síðasta lagið lang skemmtilegast, þar sem hún kvatti ósjálfstæðar þjóðir til sjálfstæðis. “Don’t let them do that to you. Raise your flag”, og kórinn tók undir “higher, higher”. Ástæðan fyrir því að mér fannst þetta lag svona skemmtilegt er sú að það minnti mig á þá gömlu góðu tíma þegar menn nenntu að berjast. Hipparnir alltaf að rífa kjaft yfir einhverju, muniði. Eða þegar ungmennafélagarnir sigldu með bláhvíta fánann forðum. En mér fannst það líka gott hjá henni að minna á að þjóðirnar eigi að varðveita tungu sína og menningu. Ég held að það sé full ástæða til þess að vera svoldið þjóðernislegur og alls ekki neitt slæmt við það. Í huga mínum þróast heimurinn í framtíðinni eins og leirinn sem ég fékk í bernsku. Fallegir litirninr í byrjun en endaði svo í einni grárri kúlu sem enginn nennti að leika sér að. En svo ég víki mér aftur að tónleikunum, þá var lagið líka svo skemmtilegt af því að það féll í kramið hjá krökkunum, krafturinn og baráttuandinn. Kannski ágætis innlegg í upphaf kosningabaráttunnar. Áfram Björk!


Oddvitinn og formaður byggðaráðs einir í minnihluta

Það hlýtur að vera sérkennileg upplifun fyrir oddvita Rangárþings eystra, Ólaf Eggertsson á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum og formann byggðarráðs, Elvar Eyvindsson á Skíðbakka í Austur-Landeyjum, að lenda einir í minnihluta sveitarstjórnar við afgreiðslu mála.  Samkvæmt frétt Sunnlenska fréttablaðsins í síðustu viku kom þessi sérkennilega staða upp þegar verið var að afgreiða beiðni þeirra Ólafar Pétursdóttur og Þorsteins Njálssonar á Lambafelli undir Eyjafjöllum um að taka tilteknar spildur á jörð sinnu úr landbúnaðarnotum. Þessi frétt vakti svo margar spurningar hjá mér að ég vippaði mér inná heimasíðu Rangárþings eystra til að kíkja í fundargerðir sveitarfélagsins.  Ég hvet alla til að gera slíkt hið sama því bókanirnar sem þar eru í tenglsum við þetta mál eru bæði stórfurðulegar og lang út fyrir almennar venjur um bókanir í fundargerðir sveitarstjórna. Oddvitinn bókar hjásetu en segist jafnframt vera alfarið á móti því að tiltekin spilda sé tekin úr landbúnaðrnoturm. Formaður byggðaráðs leggur fram bókun sem hann kallar hugleiðingu og er ein 600 orð (ath. 7-8 starfsetningaræfingar!) og þar er hann aðallega að gagnrýna afgreiðslu sveitarstjórnar á skipulagsmálum, en virðist búinn að gleyma því að hann situr sjálfur í meirihluta og ber þar af leiðandi ábyrgð á þessum afgreiðslum.  Alveg kostulegt. Jörðina Lambafell líta þeir á sem mikla landkostajörð en þar hefur samt ekki verið stundaður búskapur árum saman. Það skyldi þó aldrei trufla oddvitann að Lambafell er næsta jörð við Þorvaldseyri? Að Ólöf Pétursdóttir er varafulltrúi framsóknarmanna í sveitarstjórn? Að þarna er meiningin að byggja upp nýja atvinnustarfsemi? Er oddvitinn mótfallinn atvinnuuppbyggingu í sinni sveit?

Reyndir sveitarstjónarmenn segja mér að þeir myndu aldrei láta það viðgangast að lenda í slíkri stöðu. Meirihlutinn hlýtur að þurfa að komast að sameiginlegri niðurstöðu við afgreiðslu mála hvað sem einkaskoðunum og einkahagsmunum líður.



« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband