3.5.2007 | 22:17
Lókalefni í kosningabaráttu
Það er ýmislegt gott við kosningabaráttu, þá finnur maður á einhvern hátt svo mikið fyrir því að tilheyra ákveðnu svæði og ákveðnu kjördæmi. Hluti af þessu er að fá lókal kosningaefni inn um dyralúguna. Það er einhvern veginn persónulegra heldur en þetta fílteraða auglýsingaefni sem birtist á landsvísu. Samt er það þannig að maður veltir stundum fyrir sér tilgangnum með sumu efni. Eins og ég hef áður getið notar Sjálfstæðisflokkurinn minnið um Mallhvíti og dvergana sjö, án þess þó að segja söguna sjálfa, heldur meira sem myndefni. Framsóknarflokkurinn hefur breytt hinum forna Þjóðólfi í uppskriftabók og Samfylkingin hefur gefið út ljóðabók. Uhm... halda þeir að jólin séu í nánd? Eða er verið að reyna höfða til nýrra kjósenda með því að birta eldgömul ættjarðarljóð og mataruppskriftir? Ég held að þetta hitti ekki í mark. Getur jafnvel skapað þá tilfinningu hjá lesandanum að útgefandinn líti niður á kjósendur og telji að þeir hafi ekki neitt vit á pólitík, þannig að það taki því ekki að ræða hana og útlista á prenti eða að flokkarnir hafi ekki neitt að segja, eins og virðist eiga við um öll hin framboðin, því frá þeim hefur ekki komið neitt lókalefni. Sakna þess...
En smá tilvitnanir svo hægt sé að leggja mat á boðskapinn.
Fyrst úr ljóðakveri Samfylkingarinnar:
Lóan eftir Pál Ólafsson
,,Lóan er komin að kveða burt snjóinn,
kveða burt leiðindin, það getur hún.
Hún hefur sagt mér að senn komi spóinn,
sólskin í dali og blómstur í tún"
Hvaða lærdóm má draga af þessum boðskap. Eru leiðindin kosningabaráttan? Mér finnst þetta einhvern veginn hljóma þannig, enda allir orðnir hálf leiðir á þessu tuði.
Og svo er það gamli Þjóðólfur Framsóknar:
Eplasalat úr Biskupstungunum:
,,Græn epli eru skorin í bita og ólífuolíu hellt yfir. Sultuðum engifer bætt út í og Kóríander frá Engi í Biskupstungum einnig. Að lokum eru ristaðar nokkrar furuhnetur og sett saman við. "
Hvaða gagn höfum við svo af þessu? Jú, eplin eru græn og kryddið úr kjördæminu, þannig að ef við gerum salatið sem væri skynsamlegt ef marka má tilganginn, daginn fyrir kjördag er sjens að það gæti minnt okkur á að kjósa Framsókn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.