23.5.2007 | 13:14
Konur í mínus, karlar í plús, alltaf sama sagan
Fátt virðist geta orðið til þess að fjölga konum í ríkisstjórn. Eins og áður ein kona frá íhaldinu og þrjár frá hinum. Ég verð nú samt að gefa Samfylkingunni plús fyrir að standa með konum og landsbyggðinni. Það má velta fyrir sér hvers vegna íhaldið heldur svo sterkt í þá hefð að láta bara þá sem eru eftir á listum fá ráðherraembætti. Er það til að afsaka það að vera nánast bara með karlráðherra, þeir eru jú eftir á listum allsstaðar hjá þeim. Hvað með hæfni? Kemur hún málinu ekkert við? Mér finnst t.d. skrítið hjá þeim að ganga fram hjá konum eins og Guðfinnu Bjarnadóttur. Á ég að trúa því að hún sætti sig við að hætta í fínu djobbi (á góðum launum) bara til að verða óbreyttur þingmaður? Ætlar Geir ekkert að gera í því að halda í svona flotta kandidata? Hver verður fyrstur til að bjóða Guðfinnu nýja vinnu? Nei, karlar skulu það vera sama hvað... og íhaldskellurnar sætta sig við það. Eru bara með smá skeifu til að byrja með.
Samfylkingin getur ekki fengið plús frá mér fyrir að standa með sjáfri sér. Hvað með Íraksstríðið? Uhm... átt það ekki að vera fyrsta verk Ingibjargar að taka okkur af lista hinna staðföstu þjóða? Ég hefði gjarnan viljað að hún hefði staðið við það. Mér finnst þau nú líka sætta sig við lítinn hlut í ráðuneytisskiptingunni. En það er nú kannski gott, reynsla þeirra er ekki mikil. Nú svo halda þeir því fram að þetta verði velferðarstjórn. Nú geta öll börn landsins tekið niður tannpínutreflana og glaðst yfir væntanlegum setum í tannlæknastólum um allt land.
Í Blaðinu í dag er því haldið fram að ný viðreisnarstjórn sé að taka við. Er þá Samfylkingin gamli Alþýðuflokkurinn? Ég bara spyr, því ekki var hún stofnuð til að vera hann, eða hvað?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.