Enginn skilningur - engin virðing

Nú hefur viðræðum Kennarasambands Íslands og Launanefndar sveitafélaga vegna endurskoðunarákvæðis í kjarasamningi grunnskólans verið hætt og eftir 17 fundi er enginn árangur í augsýn.  Þetta eru dapurlegar fréttir fyrir grunnskólakennara.  Sami gamli tónninn frá því í kjaraviðræðum 2004 hefur verið sleginn, ekkert hefur breyst og ljóst að himinn og haf er á milli aðila. Verðbólga er nú 7.4%, var 3.8% þegar kjarasamningurinn var gerður. Þær hækkanir sem kjarasamningurinn gerir ráð fyrir er 2.25% á ári og er það aðeins 1/3 af því sem verðbólgan er nú. Launavísitala opinberra starfsmanna hefur árið 2006 hækkað um 11.3% á sama tíma og laun grunnskólakennara hækkuðu um 2.25%.  Sveitarfélögin hafa viðurkennt verðlagshækkanir með því að hækka gjaldskrár sínar en þegar kemur að launum kennara kannast þeir alls ekki við þessa verðlagsþróun, þeir geta í mesta lagið bætt 0.75% við umsamdar hækkanir.

Eftir bitra verkfallsreynslu og lagasetningu haustið 2004 voru kennarar píndir til að samþykkja kjarasamning, sem allir voru óánægðir með, meðal annars af forystu Kennarasambands Íslands. Í kjölfar þess ákváðu grunnskólakennarar að endurskoða baráttuaðferðir sínar m.a. með því að styrkja innra starf sitt og skipta um menn í brúnni.  Þrátt fyrir að nú hafi farið fram sveitarstjórnarkosningar hafa menn hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga ekki gert hið sama og ég leyfi mér að fullyrða að embættismenn hjá Launanefndinni og Sambandinu eiga stóran þátt í að sá fræjum tortryggni og jafnvel vanvirðingar í garð starfa kennara.  Þeir halda því fram að sveitarfélögin fái lítið fyrir mikið þegar kemur að launum kennara. Því er haldið fram að innan Sambandsins að kennsla sé aðeins 30% af vinnutíma kennara og er svo á þeim að skilja að við kennarar vinnum litlu meira. Þessu til staðfestingar er sagt, að kennarar  vinni 180 daga á ári og tæplega það því stundum eru próf og þá eru allir farnir heim eftir einn til tvo tíma, nú kennsluskyldan er 26 tímar (og athugið sinnum 40 mín) þannig að það hljóta allir að sjá að sveitarfélögin fá lítið fyrir mikið.  Að halda slíku fram er hreinn dónaskapur og ættu sveitarstjórnamenn að losa sig hið fyrsta við slíka embættismenn.  Staðreyndin er sú að kennsla er erfitt starf, það tekur mikla orku frá þeim sem því sinna.  Samstarf og samvinna bæði innan skólanna og útávið og eykst sífellt og kennarar gera þá kröfu til sín á upplýsingaöld að vera bæði vel upplýstir og fylgjast vel með nýjungum á sviði menntunar- og þekkingarfræða.

Þegar embættismenn Launanefndar reikna út launahækkanir tala þeir aldrei um einstaklinga, þeir tala aðeins um milljarða kostnað fyrir sveitafélögin og tala þá um þau eins og einn atvinnurekanda. Þeir hafa til dæmis alveg gleymt því að í síðustu kjarasamningum var hópur kennara sem fékk alls enga launahækkun og ef ég tala fyrir sjálfa mig þá hef ég talsvert lægri tekjur árið 2006 en árið 2004. 

Ekki veit ég hver þróun í kjaramálum kennara verður en ef  kennarar sjálfir eru ekki tilbúnir til að berjast með kjafti og klóm fyrir hækkuðum launum mun ekkert gerast. Það er ekki hægt að ætlast til þess að örfáir fulltrúar okkar dragi vagninn. Verkfallsaðgerðir af sama tagi og 2004 eru varla inní myndinni. Hópuppsagnir gætu átt sér stað en miðaði við skrif og áróður hef ég ekki trú á því.  Hópuppsagnir gætu hins vegar rofið samstöðuna um Launanefndina þannig að einstök sveitarfélög færu að semja við sitt fólk á sínum forsendum.  Sú þróun er sennilega ekki æskileg fyrir minni og fátækari sveitarfélög en fyrir þau stærri er þetta auðveldur leikur.  Menn myndu þá etv. hætta að hlusta á ráð misviturra embættismanna Sambands íslenskra sveitarfélaga og fara að taka sjálfstæðar ákvarðanir eins og  kjósendur hafa treyst þeim til að gera.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Eg bara spir hver eru laun kennara i dag,Auðvitað viljum við borga mannsæmandi laun!!!!,en þu verður að stiðja þin rök betur/hvað er farið framá ,spir sá sem ekki veit*/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 13.2.2007 kl. 16:32

2 identicon

Verið er að fara fram á 7,5% hækkun út samningstímann en meðal dagvinnulaun kennara eru 258.573. Meðal dagvinnulaun leikskólakennara eru 289.460 samkvæmt upplýsingum frá kjararannsóknarnefnd KOS

steinunn (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 22:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband