Færsluflokkur: Matur og drykkur
20.5.2009 | 15:18
Ótrúlega gott hafra- og kartöflubrauð
Það er sniðugt að nota alls konar afganga í brauð. Þessa uppskrift samdi ég um daginn þegar ekki var sól og blíða úti. Hún er góð og holl. Þið megið alveg prófa næst þegar þið eruð í bökunarstuði.
Hafra- og kartöflubrauð
Þetta er sérlega gott brauð sem helst lengi mjúkt og geymist vel. Gott að baka ef við eigum afgang af kartöflum og það skiptir ekki megin máli hversu mikið af þeim við notum. Í staðin má líka nota soðin hrísgrjón eða bankabygg og afgang af hafragraut en þá þarf ekki að setja hafra líka. Bara um að gera að prófa að nýta afganga í brauðgerðina! Það er nefnilega betra en við höldum. Best er að nota allt lífrænt í brauðið sem við náum í þá verður það bragðbetra en það er líka allt í lagi að nota venjulegar vörur.
Uppskriftin er svona:
1 bolli tröllahafrar lagðir í bleyti í ca 1 dl volgt vatn (til að fljóti yfir)
3 frekar stórar kaldar kartöflur vel stappaðar
1 kg hveiti
25 gr smjör
½ l mjólk
ca.2 msk hrásykur
1 msk maldon salt (mylja milli fingra)
1 poki þurrger (12 gr) eða 50 gr pressuger.
Setja hafrana í skál og hella volgu vatni yfir lát bíða á meðan hitt er tekið til.Setja mjólkina og smjörið í skál og hita að ca. 40° Setja allt annað þurrefni og stappaðar kartöflur í skál og blanda vel saman, þá eru hafrar settir útí og hrært. Síðan er smjörið og mjólkin sett útí og hnoðað vel (4 mín í hrærivél). Setja vökva smám saman eftir þörfum. Láta lyfta sér í klukkustund. Skipta deiginu í þrennt og fletja út í köku (eins og pissu en ekki eins þunnt) vefja upp og setja í form. Látið lyfta sér vel (næstum eins og það sé fullbakað). Þetta passar í þrjú meðalstór form eða tvö stór. (Það er ekki nauðsynlegt að setja í form en það er ekki verra).
Bakist við ríflega 200° á blæstri.
Verði ykkur að góðu!Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)