Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
11.4.2007 | 11:03
Glatað sjónvarpsefni
Ég horfði í gærkvöldi eins og sannur Sunnlendingur á útsendingu Sjónvarpsins frá Selfossi á einhvers konar framboðsfundi. Ég skil nú bara ekki svona útsendingu. Vegna þess að þarna var margt mjög hallærislegt, fyrir nú utan það hvað þátturinn var leiðinlegur. Nokkur atriði til umhugsunar:
- Uppstilling frambjóðenda, konur komið alls ekki í pilsum í slíka útsendingu.
- Uppstilling frambjóðenda, þátttakendur gætið að hvernig þið sitjið.
- Uppstilling frambjóðenda, af hverju er meirhlutanum D og B stillt upp á móti hinum? Er Sjónvarpið að gera ráð fyrir því að Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn séu saman í kosningabandalagi á móti hinum, eða hvað?
- Þátttakendur. Þeir geta reyndar ekkert gert að því hvernig þeir eru, en ekki eru þeir skemmtilegir.
- Þáttastjórnendur. Þeir eru sennilega bara að vinna vinnuna sína, en ekki eru þeir skemmtilegir.
- Sjónvarpsefni á besta tíma, úff hvað þetta á eftir að verða þreytandi mánuður framundan, væri ekki ráð að prófa eitthvað nýtt?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.4.2007 kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.4.2007 | 13:27
Hver er sjoppulegastur?
Samfylkingin er með sinn formann í fararbroddi og rauði liturinn allsráðandi. Búið er að afmá allar hrukkur af formanninum, Ingibjörgu Sólrúnu eina ferðina enn, hlýtur að hafa verið meiri vinna núna en fyrir fjórum árum, það fjölgar jú hrukkunum. Í síðustu kosningabaráttu var talað um að sá væri sjoppulegastur sem augljóslega hefði fengið mestu fótóshop yfirferðina. Þá skaraði Ingibjörg Sólrún fram úr og mér sýnist hún ætli að gera það líka núna.
Framsókn fer fram með græna kallinn, minnir örlítð á yfirreið Jóns Baldvins og var það ekki Svavar sem fór með honum um landið á rauðu ljósi? Ég skildi þá herferð aldrei því í mínum huga þýðir rautt ljós stopp og ég held að þeir hafi ekki heldur komist neitt sérstaklega langt þá. Kannski gengur græna kallinum betur enda hefur hann alltaf táknað að maður hafi leyfi til að halda áfram. Sennilega er verið að biðja um það leyfi, leyfi til að halda áfram.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki látið mikið á sér bera, hér í Suðurkjördæmi var send mynd af fimm efstu frambjóðendum flokksins og voru sumir nánast óþekkjanlegir á þeirri mynd, búnir að láta stílisera sig alveg uppá nýtt.
Frjálslyndir ætla ekki að komast uppúr innflytjendapólitíkinni, gott fyrir þá hvað fáir nýbúar skilja íslensku almennilega, þeir vita þá ekki hver óvinurinn er.
Nú svo er það nýi flokkurinn hans Ómars, Íslandshreyfingin, hann er að baksa við að koma saman listum um allt land og ætlar það að taka tíma sinn. Það er nú nógu erfitt fyrir flokka sem eiga rætur um allt land að finna heppilega frambjóðendur hvað þá fyrir flokka sem eru stofnaðir svona stuttu fyrir kosningar. En þeir mega eiga það að þeir reyna að höfða til allra í litavali, vantar bara gula litinn. Og Ómar sjálfur orðinn sá stjórnmálamaður sem þjóðin ber hvað mest traust til. Hvað þarf til brunns að bera til að teljast góður stjórnmálamaður? Ég bara spyr.
Að lokum eru það svo Vinstri græn. Þau eru búin að henda græna litnum og orðin alveg rauð, í auglýsingu í Mogganum í dag er Ögmundur mættur undir slagorðunum Bætum kjörin, burt með fátækt það er gott hjá honum þar sem hann er formaður BSRB og ríkið hefur nú ekki verið þekkt fyrir að borga of há laun í gegnum tíðina. En ég verð að segja eins og er að þeir hefu nú átt að stílisera Ögmund aðeins betur á þessari mynd, ég verð að snúa mér aftur að upphaflegu merkingu orðsins sjoppulegur og þá hlýtur Ögmundur titilinn að þessu sinni.
28.3.2007 | 10:06
Oddvitinn og formaður byggðaráðs einir í minnihluta
Það hlýtur að vera sérkennileg upplifun fyrir oddvita Rangárþings eystra, Ólaf Eggertsson á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum og formann byggðarráðs, Elvar Eyvindsson á Skíðbakka í Austur-Landeyjum, að lenda einir í minnihluta sveitarstjórnar við afgreiðslu mála. Samkvæmt frétt Sunnlenska fréttablaðsins í síðustu viku kom þessi sérkennilega staða upp þegar verið var að afgreiða beiðni þeirra Ólafar Pétursdóttur og Þorsteins Njálssonar á Lambafelli undir Eyjafjöllum um að taka tilteknar spildur á jörð sinnu úr landbúnaðarnotum. Þessi frétt vakti svo margar spurningar hjá mér að ég vippaði mér inná heimasíðu Rangárþings eystra til að kíkja í fundargerðir sveitarfélagsins. Ég hvet alla til að gera slíkt hið sama því bókanirnar sem þar eru í tenglsum við þetta mál eru bæði stórfurðulegar og lang út fyrir almennar venjur um bókanir í fundargerðir sveitarstjórna. Oddvitinn bókar hjásetu en segist jafnframt vera alfarið á móti því að tiltekin spilda sé tekin úr landbúnaðrnoturm. Formaður byggðaráðs leggur fram bókun sem hann kallar hugleiðingu og er ein 600 orð (ath. 7-8 starfsetningaræfingar!) og þar er hann aðallega að gagnrýna afgreiðslu sveitarstjórnar á skipulagsmálum, en virðist búinn að gleyma því að hann situr sjálfur í meirihluta og ber þar af leiðandi ábyrgð á þessum afgreiðslum. Alveg kostulegt. Jörðina Lambafell líta þeir á sem mikla landkostajörð en þar hefur samt ekki verið stundaður búskapur árum saman. Það skyldi þó aldrei trufla oddvitann að Lambafell er næsta jörð við Þorvaldseyri? Að Ólöf Pétursdóttir er varafulltrúi framsóknarmanna í sveitarstjórn? Að þarna er meiningin að byggja upp nýja atvinnustarfsemi? Er oddvitinn mótfallinn atvinnuuppbyggingu í sinni sveit?
Reyndir sveitarstjónarmenn segja mér að þeir myndu aldrei láta það viðgangast að lenda í slíkri stöðu. Meirihlutinn hlýtur að þurfa að komast að sameiginlegri niðurstöðu við afgreiðslu mála hvað sem einkaskoðunum og einkahagsmunum líður.
13.2.2007 | 09:43
Enginn skilningur - engin virðing
Nú hefur viðræðum Kennarasambands Íslands og Launanefndar sveitafélaga vegna endurskoðunarákvæðis í kjarasamningi grunnskólans verið hætt og eftir 17 fundi er enginn árangur í augsýn. Þetta eru dapurlegar fréttir fyrir grunnskólakennara. Sami gamli tónninn frá því í kjaraviðræðum 2004 hefur verið sleginn, ekkert hefur breyst og ljóst að himinn og haf er á milli aðila. Verðbólga er nú 7.4%, var 3.8% þegar kjarasamningurinn var gerður. Þær hækkanir sem kjarasamningurinn gerir ráð fyrir er 2.25% á ári og er það aðeins 1/3 af því sem verðbólgan er nú. Launavísitala opinberra starfsmanna hefur árið 2006 hækkað um 11.3% á sama tíma og laun grunnskólakennara hækkuðu um 2.25%. Sveitarfélögin hafa viðurkennt verðlagshækkanir með því að hækka gjaldskrár sínar en þegar kemur að launum kennara kannast þeir alls ekki við þessa verðlagsþróun, þeir geta í mesta lagið bætt 0.75% við umsamdar hækkanir.
Eftir bitra verkfallsreynslu og lagasetningu haustið 2004 voru kennarar píndir til að samþykkja kjarasamning, sem allir voru óánægðir með, meðal annars af forystu Kennarasambands Íslands. Í kjölfar þess ákváðu grunnskólakennarar að endurskoða baráttuaðferðir sínar m.a. með því að styrkja innra starf sitt og skipta um menn í brúnni. Þrátt fyrir að nú hafi farið fram sveitarstjórnarkosningar hafa menn hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga ekki gert hið sama og ég leyfi mér að fullyrða að embættismenn hjá Launanefndinni og Sambandinu eiga stóran þátt í að sá fræjum tortryggni og jafnvel vanvirðingar í garð starfa kennara. Þeir halda því fram að sveitarfélögin fái lítið fyrir mikið þegar kemur að launum kennara. Því er haldið fram að innan Sambandsins að kennsla sé aðeins 30% af vinnutíma kennara og er svo á þeim að skilja að við kennarar vinnum litlu meira. Þessu til staðfestingar er sagt, að kennarar vinni 180 daga á ári og tæplega það því stundum eru próf og þá eru allir farnir heim eftir einn til tvo tíma, nú kennsluskyldan er 26 tímar (og athugið sinnum 40 mín) þannig að það hljóta allir að sjá að sveitarfélögin fá lítið fyrir mikið. Að halda slíku fram er hreinn dónaskapur og ættu sveitarstjórnamenn að losa sig hið fyrsta við slíka embættismenn. Staðreyndin er sú að kennsla er erfitt starf, það tekur mikla orku frá þeim sem því sinna. Samstarf og samvinna bæði innan skólanna og útávið og eykst sífellt og kennarar gera þá kröfu til sín á upplýsingaöld að vera bæði vel upplýstir og fylgjast vel með nýjungum á sviði menntunar- og þekkingarfræða.
Þegar embættismenn Launanefndar reikna út launahækkanir tala þeir aldrei um einstaklinga, þeir tala aðeins um milljarða kostnað fyrir sveitafélögin og tala þá um þau eins og einn atvinnurekanda. Þeir hafa til dæmis alveg gleymt því að í síðustu kjarasamningum var hópur kennara sem fékk alls enga launahækkun og ef ég tala fyrir sjálfa mig þá hef ég talsvert lægri tekjur árið 2006 en árið 2004.
Ekki veit ég hver þróun í kjaramálum kennara verður en ef kennarar sjálfir eru ekki tilbúnir til að berjast með kjafti og klóm fyrir hækkuðum launum mun ekkert gerast. Það er ekki hægt að ætlast til þess að örfáir fulltrúar okkar dragi vagninn. Verkfallsaðgerðir af sama tagi og 2004 eru varla inní myndinni. Hópuppsagnir gætu átt sér stað en miðaði við skrif og áróður hef ég ekki trú á því. Hópuppsagnir gætu hins vegar rofið samstöðuna um Launanefndina þannig að einstök sveitarfélög færu að semja við sitt fólk á sínum forsendum. Sú þróun er sennilega ekki æskileg fyrir minni og fátækari sveitarfélög en fyrir þau stærri er þetta auðveldur leikur. Menn myndu þá etv. hætta að hlusta á ráð misviturra embættismanna Sambands íslenskra sveitarfélaga og fara að taka sjálfstæðar ákvarðanir eins og kjósendur hafa treyst þeim til að gera.
8.2.2007 | 16:54
Kristinn farinn
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)