Hver er sjoppulegastur?

 Jæja, þá fer kosningabaráttan loks af stað og nú er spennandi að fylgjast með hvernig lúkkið verður á henni. Við fyrstu sýn er þetta einhvern veginn svona:

Samfylkingin er með sinn formann í fararbroddi og rauði liturinn allsráðandi. Búið er að afmá allar hrukkur af formanninum, Ingibjörgu Sólrúnu eina ferðina enn, hlýtur að hafa verið meiri vinna núna en fyrir fjórum árum, það fjölgar jú hrukkunum. Í síðustu kosningabaráttu var talað um að sá væri sjoppulegastur sem augljóslega hefði fengið mestu fótóshop yfirferðina. Þá skaraði Ingibjörg Sólrún fram úr og mér sýnist hún ætli að gera það líka núna.

Framsókn fer fram með græna kallinn, minnir örlítð á yfirreið Jóns Baldvins og var það ekki Svavar sem fór með honum um landið á rauðu ljósi? Ég skildi þá herferð aldrei því í mínum huga þýðir rautt ljós stopp og ég held að þeir hafi ekki heldur komist neitt sérstaklega langt þá. Kannski gengur græna kallinum betur enda hefur hann alltaf táknað að maður hafi leyfi til að halda áfram. Sennilega er verið að biðja um það leyfi, leyfi til að halda áfram.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki látið mikið á sér bera, hér í Suðurkjördæmi var send mynd af fimm efstu frambjóðendum flokksins og voru sumir nánast óþekkjanlegir á þeirri mynd, búnir að láta stílisera sig alveg uppá nýtt.

Frjálslyndir ætla ekki að komast uppúr innflytjendapólitíkinni, gott fyrir þá hvað fáir nýbúar skilja íslensku almennilega, þeir vita þá ekki hver óvinurinn er.

Nú svo er það nýi flokkurinn hans Ómars, Íslandshreyfingin, hann er að baksa við að koma saman listum um allt land og ætlar það að taka tíma sinn. Það er nú  nógu erfitt fyrir flokka sem eiga rætur um allt land að finna heppilega frambjóðendur hvað þá fyrir flokka sem eru stofnaðir svona stuttu fyrir kosningar. En þeir mega eiga það að þeir reyna að höfða til allra í litavali, vantar bara gula litinn. Og Ómar sjálfur orðinn sá stjórnmálamaður sem þjóðin ber hvað mest traust til. Hvað þarf til brunns að bera til að teljast góður stjórnmálamaður? Ég bara spyr.

Að lokum eru það svo Vinstri græn. Þau eru búin að henda græna litnum og orðin alveg rauð, í auglýsingu í Mogganum í dag er Ögmundur mættur undir slagorðunum “Bætum kjörin, burt með fátækt” það er gott hjá honum þar sem hann er formaður BSRB og ríkið hefur nú ekki verið þekkt fyrir að borga of há laun í gegnum tíðina. En ég verð að segja eins og er að þeir hefu nú átt að stílisera Ögmund aðeins betur á þessari mynd, ég verð að snúa mér aftur að upphaflegu merkingu orðsins sjoppulegur og þá hlýtur Ögmundur titilinn að þessu sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband