Tíu sinnum meira!

Jæja, þá erum við kennarar búnir að semja um endurskoðun á launalið kjarasamnings okkar gegn því að vera sæt og prúð og segja ekki upp kjarasamningnum fyrr en eins seint og hægt er. Við fáum heilar 30 þúsund krónur í eingreiðslu og svo launaflokk eftir langan tíma. Þetta er árangur langra og strangra viðræðna þar sem hefur þurft að nota öll hjálpartæki sem hugsast getur.  Á sama tíma eru allir starfsmenn Kaupþings verðlaunaðir með 300.000 kr. eingreiðslu svo þeir geti verið sætir og fínir á árshátíð bankans, alveg óumbeðið. Sem sagt 10 sinnum meira, heppnir starfsmennirnir þar. Það er kannski hugmynd að þegja bara og sætta sig við að það er miklu meiri virðing og ábyrgð fólgin í því að höndla með peninga en börn.

Gulrót í næpupoka

SmileÞað er skemmtileg reynsla að fara til Kanarí. Af því fordómarnir eru nú alltaf að þvælast fyrir manni var ég alveg með það á hreinu hvernig þetta væri, þessi gamlingjaeyja! Þarna væri ekki þverfótað fyrir gamlingjum, allt frekar ljótt og útjaskað af túrimsa. Sem betur fer er raunveruleikinn ekki eins og maður er búinn að ímynda sér. Hvaða erindi hefði ég líka átt til Kanarí ef það hefði verið þannig? Sem betur fer geri ég mér grein fyrir því að ég hef ekki alltaf rétt fyrir mér. Sem sagt það var bara ánægjulegt að koma til Gran Kanarí. Þarna er býsna fallegt, enda eyjan eldfjallaeyja eins og Ísland, veðrið var frábært, sól og sæla um miðjan vetur. Þarna vorum við á ágætis hóteli með upphitaðri góðri sundlaug sem var óspart notuð og svo var bara fínn matur næstum sama hvar var snætt.

 Snætindur Kaktusar á fjalli Bandamagýgurinn

Að áeggjan vina okkar fórum við í eina túristaferð um eyjuna. Það var svokölluð Bandamaferð. Þá er farið uppá hálendið og skoðaður gígur, Bandamagígur en ofan í honum er bóndabýli og síðan er ekið uppað hæstu tindum með stoppum á ýmsum skemmtilegum stöðum.  Þarna efst uppi (tæplega 2000m) vaxa miklir furuskógar en furan á Kanarí er þannig að þó hún brenni byrjar hún aftur að vaxa innan tíðar.  Þetta er friðað svæði, þeirra örævi. Þarna var fólk í útilegu, ótrúlega fyndið að grilla, með tjöld og þess háttar og sat og spilaði þarna í kuldanum. Það er reyndar byggð nær alla leið upp og þarna er hægt að virða fyrir sér hæstu tinda eyjarinnar Snætind og Roco nublo. Og ótrúlegt að sjá yfir til Tenerife, skýjum ofar en eyjan sú mun vera 3800 m að hæð.  Í efstu byggðum voru líka sölutjöld þar sem heimamenn seldu okkur indjánapeysur og fleira nytsamlegt.  Þeir eru ótrúlega duglegir að pranga inná fólk einhverju alveg fáránlegu en það er líka hluti af skemmtuninni.

Nú svo er ýmislegt fleira merkilegt að sjá á eyjunum svo sem nektarstrendur þar sem meira en miðaldra karlmenn spranga um á tillanum einum. Með þeim eru nokkrar gamlar kellingar en ekkert of margar samt.  Mjög spennandi.  Svo er líka homma nektarströnd og þar sitja saman tveir og tveir naktir karmenn, yfirleitt alveg eins, með rakaðan haus.  Það virðist vera alger tískubóla meðal hommanna á Kanarí að vera með rakaðn haus. Skrítið, ég hélt að það væri ekki svo gott í sólinni. En það sólbrennur nú sem öðruvísi er. 

Þeir mættu nú taka sig aðeins á í umhverfismálum þarna á eyjunni og þó að ræktunin þeirra sé sjálfsagt umhverfisvæn er ekki mikil prýði af gróðurhúsunum þeirra.  Ótrúleg flæmi af ljótum brúnum “gróðurhúsum”. 

Já, það var fínt að vera þarna í tvær vikur og þegar maður kemur heim búinn að keppast við að verða sólbrúnn líður manni ótrúlega skrítilega svona eins og gulrót í næpupoka.

. Dúfan vinkona mínÉg eignaðist vinkonu á Kanarí, dúfu sem kom oft í heimsókn.


Enginn skilningur - engin virðing

Nú hefur viðræðum Kennarasambands Íslands og Launanefndar sveitafélaga vegna endurskoðunarákvæðis í kjarasamningi grunnskólans verið hætt og eftir 17 fundi er enginn árangur í augsýn.  Þetta eru dapurlegar fréttir fyrir grunnskólakennara.  Sami gamli tónninn frá því í kjaraviðræðum 2004 hefur verið sleginn, ekkert hefur breyst og ljóst að himinn og haf er á milli aðila. Verðbólga er nú 7.4%, var 3.8% þegar kjarasamningurinn var gerður. Þær hækkanir sem kjarasamningurinn gerir ráð fyrir er 2.25% á ári og er það aðeins 1/3 af því sem verðbólgan er nú. Launavísitala opinberra starfsmanna hefur árið 2006 hækkað um 11.3% á sama tíma og laun grunnskólakennara hækkuðu um 2.25%.  Sveitarfélögin hafa viðurkennt verðlagshækkanir með því að hækka gjaldskrár sínar en þegar kemur að launum kennara kannast þeir alls ekki við þessa verðlagsþróun, þeir geta í mesta lagið bætt 0.75% við umsamdar hækkanir.

Eftir bitra verkfallsreynslu og lagasetningu haustið 2004 voru kennarar píndir til að samþykkja kjarasamning, sem allir voru óánægðir með, meðal annars af forystu Kennarasambands Íslands. Í kjölfar þess ákváðu grunnskólakennarar að endurskoða baráttuaðferðir sínar m.a. með því að styrkja innra starf sitt og skipta um menn í brúnni.  Þrátt fyrir að nú hafi farið fram sveitarstjórnarkosningar hafa menn hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga ekki gert hið sama og ég leyfi mér að fullyrða að embættismenn hjá Launanefndinni og Sambandinu eiga stóran þátt í að sá fræjum tortryggni og jafnvel vanvirðingar í garð starfa kennara.  Þeir halda því fram að sveitarfélögin fái lítið fyrir mikið þegar kemur að launum kennara. Því er haldið fram að innan Sambandsins að kennsla sé aðeins 30% af vinnutíma kennara og er svo á þeim að skilja að við kennarar vinnum litlu meira. Þessu til staðfestingar er sagt, að kennarar  vinni 180 daga á ári og tæplega það því stundum eru próf og þá eru allir farnir heim eftir einn til tvo tíma, nú kennsluskyldan er 26 tímar (og athugið sinnum 40 mín) þannig að það hljóta allir að sjá að sveitarfélögin fá lítið fyrir mikið.  Að halda slíku fram er hreinn dónaskapur og ættu sveitarstjórnamenn að losa sig hið fyrsta við slíka embættismenn.  Staðreyndin er sú að kennsla er erfitt starf, það tekur mikla orku frá þeim sem því sinna.  Samstarf og samvinna bæði innan skólanna og útávið og eykst sífellt og kennarar gera þá kröfu til sín á upplýsingaöld að vera bæði vel upplýstir og fylgjast vel með nýjungum á sviði menntunar- og þekkingarfræða.

Þegar embættismenn Launanefndar reikna út launahækkanir tala þeir aldrei um einstaklinga, þeir tala aðeins um milljarða kostnað fyrir sveitafélögin og tala þá um þau eins og einn atvinnurekanda. Þeir hafa til dæmis alveg gleymt því að í síðustu kjarasamningum var hópur kennara sem fékk alls enga launahækkun og ef ég tala fyrir sjálfa mig þá hef ég talsvert lægri tekjur árið 2006 en árið 2004. 

Ekki veit ég hver þróun í kjaramálum kennara verður en ef  kennarar sjálfir eru ekki tilbúnir til að berjast með kjafti og klóm fyrir hækkuðum launum mun ekkert gerast. Það er ekki hægt að ætlast til þess að örfáir fulltrúar okkar dragi vagninn. Verkfallsaðgerðir af sama tagi og 2004 eru varla inní myndinni. Hópuppsagnir gætu átt sér stað en miðaði við skrif og áróður hef ég ekki trú á því.  Hópuppsagnir gætu hins vegar rofið samstöðuna um Launanefndina þannig að einstök sveitarfélög færu að semja við sitt fólk á sínum forsendum.  Sú þróun er sennilega ekki æskileg fyrir minni og fátækari sveitarfélög en fyrir þau stærri er þetta auðveldur leikur.  Menn myndu þá etv. hætta að hlusta á ráð misviturra embættismanna Sambands íslenskra sveitarfélaga og fara að taka sjálfstæðar ákvarðanir eins og  kjósendur hafa treyst þeim til að gera.


Kristinn farinn

Ég má nú til með að óska Kristni H. Gunnarssyni til hamingju með að vera genginn í Frjálslyndaflokkinn og Frjálslynda flokknum til hamingju með hann. Þetta hefur verið ansi löng meðganga skilnaðar við gamla flokkinn, ef hann þá á annað borð giftist honum nokkurntímann. Ég held að það sé vont fyrir alla aðila að vera svona lengi að ákveða skilnað, það vita nú allir hvað þetta getur haft slæm áhrif á fjölskylduna. En nú geta menn farið að byggja sig upp fyrir nýtt líf og nýja tilveru. Það er örugglega full þörf á Kristni í Frjálslyndaflokknum, hann kemur þá væntanlega í staðinn fyrir Margréti, bara spurning hvort honum fylgir sá heimamundur sem Margrét tók með sér. Svo verður líka fróðlegt að fylgjast með sambúðinni á nýja heimilinu.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband